S krafðist viðurkenningar á að félagið hefði frá 1. febrúar 2024 farið með samningsaðild fyrir tilgreinda félagsmenn við gerð kjarasamnings við SA, vegna starfa þeirra sem hafnarverkamenn hjá EÍ ehf. SA vísaði til þess að í gildi væri kjarasamningur við E þar sem samið hefði verið um forgangsrétt félagsmanna stéttarfélagsins til umræddra starfa. Deilt var um þýðingu þessa en stefndi SA taldi að hann væri skuldbundinn til að viðurkenna aðeins eitt stéttarfélag sem lögformlegan samningsaðila á viðkomandi svæði og gæti því ekki gert kjarasamning við annað stéttarfélag um sömu störf. Í dómi Félagsdóms var rakið að ákvæði í kjarasamningum um forgangsrétt ættu sér langa sögu hér á landi og hefði í dómaframkvæmd verið talið að slík ákvæði samrýmdust tilgangi stéttarfélaga, sbr. 1. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og að slík ákvæði brjóti ekki í bága við félagafrelsis- og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár. Vísað var til þess að forgangsréttarákvæði í kjarasamningi SA og E veitti félagsmönnum stéttarfélagsins tiltekinn rétt til vinnu fram yfir þá sem stæðu utan þess og væri atvinnurekandi skuldbundinn til að virða þann rétt. Að virtri dómaframkvæmd var ekki talið að venja hefði skapast í íslenskum vinnurétti til að leggja víðtækari skilning í forgangsréttarákvæði en leiðir af orðum þeirra, þannig að atvinnurekandi sé skuldbundinn til að gera einungis kjarasamning við viðkomandi stéttarfélag. Þá leiddi slík skuldbinding ekki af fyrirmælum í lögum og fengi jafnframt illa samrýmst 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Aftur á móti leiddi af dómaframkvæmd að SA væri skuldbundið til að semja ekki við annað stéttarfélag um forgang félagsmanna þess til sömu starfa. S hefði lýst því yfir að hann hygðist ekki semja við SA um forgangsrétt félagsmanna sinna til umræddra starfa og væru þeir þannig reiðubúnir til að þola þann missi í starfsöryggi sem leiðir af forgangsréttarákvæði í kjarasamningi SA og E. Að virtri 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, tilgangi og hlutverki S samkvæmt samþykktum, sem og því að þeir félagsmenn sem um ræðir eru óbundnir af gildandi kjarasamningi SA og E, var krafa S tekin til greina.